Heilt lið örvfættra

Gabriel Magalhaes og Bukayo Saka fagna marki. Þeir eru báðir …
Gabriel Magalhaes og Bukayo Saka fagna marki. Þeir eru báðir örvfættir. AFP/Patricia de Melo Moreira

Mikel Arteta knattspyrnustjóri Arsenal hefur mikið dálæti á örvfættum leikmönnum og hefur sankað þeim að sér jafnt og þétt á umliðnum árum. Nú er svo komið að hann gæti stillt upp heilu liði af örvfættum útileikmönnum. 

Í byrjunarliði Arsenal í sigrinum á Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í vikunni voru fimm örvfættir leikmenn; Jakub Kiwior, Oleksandr Zinchenko, Martin Ødegaard, Kai Havertz og Bukayo Saka. Sá sjötti, Mikel Merino, kom inn á sem varamaður. Með honum á tréverkinu sátu að auki tvö örvfætt ungmenni, varnarmaðurinn Ayden Heaven og sóknarmaðurinn Ethan Nwaneri, sem sett hefur svip sinn á lið Arsenal á þessu hausti, og Skotinn Kieran Tierney, sem hefur lengi verið frá keppni vegna meiðsla. Þrír örvfættir menn misstu af leiknum vegna hnjasks, varnarmennirnir Gabriel og Riccardo Calafiori, og ungstirnið Myles Lewis-Skelly.

Hættu að telja, þetta er ég!

Hættu að telja, þetta er ég! gæti nú einhver galað, en við erum komin upp í tólf menn, sum sé heilt lið og einum betur. Glöggir lesendur veita því þó væntanlega athygli að enginn markvörður er í hópnum en ugglaust má finna hann í yngri liðum félagsins.

Martin Ødegaard, fyrirliði Arsenal, er örvfættur.
Martin Ødegaard, fyrirliði Arsenal, er örvfættur. AFP/Adrian Dennis

Við þetta má bæta að Arsenal lánaði þrjá vinstrifótarmenn til viðbótar út í haust, Nuno Tavares, Fábio Vieira og Marquinhos. 

Bara svo á það sé minnt, þá er einn af hverjum tíu mönnum í heiminum, eða þar um bil, örvfættur. 

Já, ég er að segja ykkur það, Arsenal gæti, sýndist Arteta svo, stillt upp heilu liði skipuðu örvfættum leikmönnum, alla vega úti á velli, setjum markvörðinn aðeins til hliðar. Nú er best að fullyrða sem minnst en það yrði mögulega án fordæmis, alla vega á svona háu getustigi.

Og það sem er enn merkilegra, þetta lið yrði þrælöflugt.

Nánar er fjallað um þetta óvenjulega lið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka