Óvænt jafntefli City

Erling Haaland skoraði fyrra mark City í kvöld.
Erling Haaland skoraði fyrra mark City í kvöld. AFP/Justin Tallis

Crystal Palace og Manchester City gerðu óvænt 2:2-jafntefli í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu í dag.

City er í fjórða sæti með 27 stig, átta stigum á eftir toppliði Liverpoool. Palace er í 16. sæti með 13 stig aðeins fjórum stigum frá fallsæti.

Daniel Munoz kom Palace yfir eftir stoðsendingu frá Will Hughes þegar aðeins fjórar mínútur voru liðnar af leiknum en Erling Haaland jafnaði metin með skallamarki á 31. mínútu og staðan var 1:1 í hálfleik.

Maxence Lacroix kom Palace aftur yfir eftir stoðsendingu frá Will Hughes í upphafi seinni hálfleiks en Rico Lewis jafnaði metin fyrir City á 68. mínútu.

Lewis fékk gult spjald stuttu eftir markið og fékk annað á 84. mínútu og var því rekinn af velli og City-menn kláruðu leikinn manni færri.

 Sex marka leikur í London

Brentford sigraði Newcastle 4:2 þegar liðin mættust í London í dag og Brentford er nú með 23 stig í sjötta sæti. Newcastle er með 20 stig í 12. sæti.

Bryan Mbeumo kom heimamönnum yfir eftir aðeins átta mínútur en á 11. mínútu jafnaði Alexander Isak muninn. Yoane Wissa kom Brentford aftur yfir en Harvey Barnes skoraði jöfnunarmark Newcasle á 32. mínútu og staðan var 2:2 í hálfleik.

Nathan Collins kom Brenford yfir í upphafi seinni hálfleiks og Kevin Schade skoraði fjórða mark Brentford á 90. mínútu leiksins.

Villa hafði betur gegn botnliðinu

Aston Villa sigraði botnlið Southampton 1:0 á Villa park í dag. Jhon Duran skoraði sigurmark Villa á 24. mínútu og Villa fór upp í fimmta sæti með sigrinum en liðið er með 25 stig.

Southampton er aðeins með fimm stig á botni deildarinnar eftir 15 leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert