„Það má líka gefa þeim mikið hrós, Arsenal-mönnum, fyrir þetta,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen er rætt var um hornspyrnur Arsenal í Vellinum á Símanum Sport í gærkvöldi.
Arsenal hefur vakið athygli fyrir þá miklu hættu sem skapast af hornspyrnum þeirra í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu enda hefur liðið skorað 22 mörk eftir slíkar frá byrjun síðasta tímabils.
„Þetta er líka partur af leiknum og þetta er ákveðin list því að það er rosalega erfitt að skora úr föstum leikatriðum.
Þú ert með andstæðinginn, sennilega allt liðið ef ekki 90 prósent af liðinu, inni í teig en alltaf finna þeir glufur,“ bætti Eiður Smári við.
Umræðu hans ásamt Margréti Láru Viðarsdóttur og þáttastjórnandanum Herði Magnússyni um Arsenal má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.