Tékkneski knattspyrnumaðurinn Tomás Soucek, miðjumaður West Ham United, tileinkaði liðsfélaga sínum Michail Antonio mark sitt í 2:1-sigri á Wolves í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.
Antonio fótbrotnaði í alvarlegu bílslysi á laugardag og gekkst undir skurðaðgerð degi síðar. Verður hann frá í eitt ár hið minnsta og gæti ferlinum raunar verið lokið.
„Markið var fyrir hann. Ég sagði það fyrir leikinn að ég væri enn staðráðnari í að skora í dag. Hann hefur verið hérna allt frá því ég kom hingað. Hann er í alvöru uppáhaldið mitt. Ég sagði að það yrði erfitt fyrir mig að spila án hans.
Ég er ánægður með að honum gangi vel í bataferlinu en þetta mark er fyrir hann. Hann er risa leikmaður og er í hjarta mér,“ sagði Soucek í samtali við Sky Sports eftir leikinn.