Tottenham skoraði fimm í fyrri hálfleik

James Maddison fagnar fyrra marki sínu að hætti hússins í …
James Maddison fagnar fyrra marki sínu að hætti hússins í kvöld. AFP/Justin Tallis

Tottenham Hotspur vann stórsigur á botnliði Southampton, 5:0, þegar liðin áttust við í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í Southampton í kvöld. Öll mörkin komu í fyrri hálfleik.

Tottenham fór með sigrinum upp í tíunda sæti þar sem liðið er með 23 stig. Southampton situr sem fastast á botninum með aðeins fimm stig.

James Maddison braut ísinn eftir einungis 40 sekúndna leik. Áður en stundarfjórðungur var liðinn af leiknum voru fyrirliðinn Son Heung-Min og Dejan Kulusevski búnir að bæta við mörkum og staðan því 3:0 á 14. mínútu.

Á 25. mínútu bætti Pape Matar Sarr við fjórða markinu og Maddison skoraði annað mark sitt og fimmta mark gestanna frá Lundúnum áður en fyrri hálfleikur var úti.

Ekkert var skorað í síðari hálfleik og geysilega öruggur fimm marka sigur Tottenham því niðurstaðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert