Úkraínski knattspyrnumaðurinn Mykhailo Mudryk, leikmaður Chelsea, kveðst ekkert rangt hafa gert og að það hafi komið honum í opna skjöldu þegar enska knattspyrnusambandið tilkynnti Mudryk að hann hafi fallið á lyfjaprófi.
Ólöglegt efni fannst í þvagprufu sem Mudryk gaf en enska knattspyrnusambandið hefur ekki viljað gefa upp hvenær lyfjaprófið fór fram og hvort hann væri kominn í tímabundið bann vegna fallsins á prófinu.
„Þessar fréttir eru mér algjört áfall þar sem ég hef aldrei nokkurn tímann notað ólögleg efni að mér vitandi eða brotið nokkrar reglur og ég vinn nú hörðum höndum að því með teymi mínu að finna út úr því hvernig þetta gat gerst.
Ég veit að ég hef ekki haft neitt rangt við og er vongóður að ég verði kominn bráðlega aftur á völlinn,“ skrifaði Mudryk á Instagram-aðgangi sínum.