Argentínski kantmaðurinn Alejandro Garnacho kemur á ný inn í lið Manchester United í kvöld þegar það mætir Tottenham í átta liða úrslitum enska deildabikarsins í knattspyrnu.
Marcus Rashford verður hins vegar áfram utan hóps en Rúben Amorim, nýr knattspyrnustjóri United, setti þá báða út úr hópnum fyrir grannaslaginn gegn Manchester City um síðustu helgi.
„Garnacho hefur staðið sig virkilega vel og hefur æft mjög vel. Hann virðist vera dálítið fúll út í mig og það er flott. Ég er mjög ánægður með það, þannig hefði ég líka verið. Hann er tilbúinn í þennan leik,“ sagði Amorim.
Hann hefur ekkert sagt um áframhaldandi fjarveru Rashfords úr hópnum en brást hins vegar við ummælum leikmannsins sem gaf í skyn í viðtali í fyrradag að hann væri á förum frá Manchester United.
„Hann hefði átt að tala við mig í staðinn fyrir að fara í fjölmiðlana,“ sagði Amorim.