The Friedkin Group, hópur bandarískra kaupsýslumanna með aðsetur í Texas, hefur formlega gengið frá kaupum á enska knattspyrnufélaginu Everton.
Samkvæmt BBC nemur kaupverðið um 400 milljónum punda en hópurinn hafði náð samkomulagi við fráfarandi eiganda, bresk-íranska kaupsýslumanninn Farhad Moshiri, í september. Moshiri keypti tæplega 50 prósenta hlut í Everton árið 2016 og eignaðist síðan 94 prósent í félaginu árið 2022.
The Friedkin Group á einnig ítalska knattspyrnufélagið Roma en hópurinn er kenndur við stjórnarformanninn og auðkýfinginn Dan Friedkin.
Fulltrúar nýju eigendanna eru væntanlegir á Goodison Park á sunnudaginn þegar Everton tekur á móti Chelsea í úrvalsdeildinni.