Auðvitað eru fleiri ástæður fyrir þessu

Pep Guardiola og Phil Foden ganga niðurlútir af velli eftir …
Pep Guardiola og Phil Foden ganga niðurlútir af velli eftir leikinn gegn Aston Villa í gær. AFP/Paul Ellis

„Þetta er undir okkur komið," sagði Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, eftir enn eitt tap liðsins í ensku úrvalsdeildinni í gær, 2:1 gegn Aston Villa í Birmingham.

City hefur nú tapað sex af síðustu átta leikjum sínum í deildinni og ef skoðuð er stigatafla deildarinnar í síðustu átta umferðunum sitja City og Southampton jöfn á botni deildarinnar með 4 stig hvort.

„Þetta leysist þegar meiddu leikmennirnir snúa aftur. Við erum bara með einn miðvörð heilan og það er erfitt. Nú hugsum við bara um næsta leik, það er ekki hægt að horfa lengra í bili," sagði Guardiola eftir leikinn í gær.

„Auðvitað eru fleiri ástæður fyrir þessu gengi. Við fáum á okkur mörk úr stöðum þar sem við fengum ekki á okkur mörk áður. Við skorum ekki mörkin sem við skoruðum áður. Í fótbolta er aldrei bara ein ástæða. Það er fullt af litlum ástæðum," sagði Guardiola.

„Við verðum að vera jákvæðir og ég hef ótrúlega mikið álit á þessum strákum. Sumir þeirra eru gríðarlega stoltir og þrá að snúa þessu við. Við verðum að finna leið, eitt skref í einu, sem allra fyrst," sagði Spánverjinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert