Salah sá fyrsti í sögunni

Mohamed Salah fagnar marki gegn Tottenham í gær.
Mohamed Salah fagnar marki gegn Tottenham í gær. AFP/Glyn Kirk

Egypski knattspyrnumaðurinn Mohamed Salah, sóknarmaður Liverpool, hefur átt magnað tímabil til þessa. Í gær afrekaði hann nokkuð sem enginn hefur afrekað áður í ensku úrvalsdeildinni.

Salah er búinn að skora 15 mörk og leggja upp önnur 11 þó ekki séu enn komin jól. Þar með er hann fyrsti leikmaðurinn í rúmlega 32 ára sögu úrvalsdeildarinnar sem kemst í tveggja stafa tölu í bæði mörkum og stoðsendingum fyrir jól.

Egyptinn er einnig fyrsti leikmaðurinn í sögu úrvalsdeildarinnar sem nær að komast í tveggja stafa tölu í mörkum og stoðsendingum á alls sex tímabilum.

Salah skoraði tvö mörk og lagði upp önnur tvö í ótrúlegum 6:3-sigri á Tottenham Hotspur í deildinni í gær. Þannig fór hann upp fyrir Billy Liddell og er nú í fjórða sæti yfir markahæstu leikmenn í sögu Liverpool.

Hann hefur nú skorað 229 mörk, einu meira en Liddell gerði á sínum tíma. Þá er Gordon Hodgson í þriðja sæti ekki langt undan, en hann skoraði 241 mark fyrir Liverpool á árunum 1925 til 1936.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert