Sló met Hasselbainks

Cole Palmer fagnar eftir að hafa komið Chelsea yfir í …
Cole Palmer fagnar eftir að hafa komið Chelsea yfir í leiknum við Fulham í gær. Hann gat þó ekki fagnað í leikslok. AFP/Glyn Kirk

Cole Palmer skoraði mark Chelsea þegar liðið tapaði óvænt í grannaslagnum gegn Fulham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær, 2:1.

Þar með setti Palmer félagsmet í mörkum fyrir Chelsea í úrvalsdeildinni (frá 1992) á einu almanaksári, eða frá 1. janúar til 31. desember.

Þetta var 26. mark Palmers fyrir Chelsea í deildinni á árinu en fyrra metið átti Jimmy Floyd Hasselbaink sem skoraði 25 mörk fyrir Lundúnaliðið árið 2001. Hasselbaink og Eiður Smári Guðjohnsen mynduðu einmitt magnað tvíeyki í sóknarleik Chelsea á þeim árum.

Palmer átti þátt í 25 mörkum Chelsea til viðbótar á árinu 2024 og er þar með búinn að koma að marki eða skora að jafnaði einu sinni í hverjum leik með félaginu í deildinni - 51 mark í 51 leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert