Enski knattspyrnumaðurinn Jarrod Bowen verður ekkert með West Ham næstu vikurnar vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leik liðsins gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni síðastliðinn sunnudag.
Bowen var tekinn af velli á 60. mínútu og nú er komið í ljós að miðjumaðurinn er fótbrotinn. Hann varð fyrir meiðslunum í fyrri hálfleik en reyndi að halda áfram, þar til hann fór loks af velli í seinni hálfleik.
Er um mikið áfall fyrir West Ham að ræða því Bowen er fyrirliði liðsins og þá er hann einnig markahæstur og með flestar stoðsendingar allra í liðinu í deildinni á leiktíðinni.
West Ham er í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með sex sigra í nítján leikjum og átta stigum fyrir ofan fallsæti.