Enski knattspyrnumaðurinn Marcus Rashford verður ekki í leikmannahópi Manchester United þegar liðið heimsækir erkifjendurna í Liverpool á Anfield í ensku úrvalsdeildinni næstkomandi sunnudag.
Rashford hefur verið úti í kuldanum hjá nýja stjóranum Rúben Amorim undanfarnar vikur og ekki spilað fyrir Man. United síðan 12. desember, í 2:1-sigri á Viktoria Plzen í Evrópudeildinni.
Hann var á varamannabekknum en kom ekkert við sögu í síðasta leik, 0:2-tapi fyrir Newcastle United í deildinni, en verður ekki með á sunnudag vegna veikinda.
„Sem stendur er hann lasinn. Hann er ekki að æfa, hann verður ekki með í þessari viku,“ sagði Amorim á fréttamannafundi í dag.