United betra en stöðutaflan segir

Arne Slot býr sína menn í Liverpool undir slag við …
Arne Slot býr sína menn í Liverpool undir slag við Manchester United á sunnudaginn. AFP/Adrian Dennis

Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að lið Manchester United sé betra en staða þess í ensku úrvalsdeildinni segi til um.

Erkifjendurnir Liverpool og Manchester United mætast á Anfield í deildinni á sunnudaginn en þrettán sæti og 23 stig skilja liðin að. Rúben Amorim hefur ekki farið vel af stað sem knattspyrnustjóri United en Slot kvaðst hafa samúð með honum.

„Þeir eru betri en taflan segir og allir knattspyrnustjórar hafa samúð með öðrum kollegum sínum. Við vitum allir hversu mikið álagið er í þessu starfi. En það er einmitt það sem við sækjumst eftir.

Hann gerði mjög vel hjá Sporting og ég held að hann sé með góðan leikmannahóp í höndunum, þannig að hann mun að lokum ná því besta út úr liðinu,“ sagði Slot á fréttamannafundi sínum á Anfield í morgun.

Slot fór yfir stöðuna á sínum leikmannahópi og sagði ekki koma til greina að hvíla neina leikmenn þó álagið á liðinu væri mikið. Conor Bradley og Ibrahima Konaté myndu æfa með liðinu í dag, í fyrsta sinn eftir að þeir meiddust, og þá kæmi staða þeirra betur í ljós. Joe Gomez væri hins vegar úr leik næstu vikurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert