Ipswich Town, nýliðar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla, hafa fengið enska varnarmanninn Ben Godfrey til liðs við sig að láni frá ítalska félaginu Atalanta. Gildir lánssamningurinn út tímabilið.
Godfrey, sem er 26 ára, gekk til liðs við Atalanta frá Everton síðastliðið sumar en átti ekki upp á pallborðið hjá stjóranum Gian Piero Gasperini og spilaði aðeins fimm leiki, þar af einungis einn í ítölsku A-deildinni.
Ipswich er í harðri baráttu um að halda sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni. Liðið er sem stendur í 18. sæti, fallsæti, með 16 stig, jafnmörg og Úlfarnir sæti ofar og einu á eftir Everton.