Kaupir Elon Musk Liverpool?

Elon Musk, ríkasti maður heims.
Elon Musk, ríkasti maður heims. AFP/Leon Neal

Auðjöfurinn Elon Musk, ríkasti maður jarðar, hefur áhuga á því að festa kaup á enska knattspyrnufélaginu Liverpool.

Liverpool er í eigu bandaríska fjárfestingafélagsins Fenway Sports Group, FSG, sem hefur átt félagið frá því í október árið 2010.

Í samtali við Times útvarpsstöðina var Errol Musk, faðir Elons, spurður hvort sonurinn hefði áhuga á að kaupa Liverpool.

„Ég get ekki tjáð mig um það, þá hækka þeir verðið!“ sagði Errol og hló. Er hann var spurður aftur hvort Elon hefði áhuga sagði Errol:

„Ójá. En það þýðir ekki að hann sé að fara að kaupa félagið. Hann myndi vilja það já, auðvitað. Allir myndu vilja það, þar á meðal ég!“

Hann bætti því þá við að Musk-fjölskyldan hefði fjölskyldutengsl við Liverpool-borg.

„Móðir mín, amma hans, fæddist í Liverpool og við eigum ættingja þar. Við vorum svo heppin að kynnast allnokkrum af Bítlunum því þeir uxu úr grasi með hluta af fjölskyldu minni. Því tengjumst við Liverpool.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert