West Ham hefur sagt spænska knattspyrnustjóranum Julen Lopetegui upp störfum eftir talsverðan aðdraganda undanfarna sólarhringa.
Í yfirlýsingu frá West Ham segir að fyrri hluti keppnistímabilsins hafi ekki þróast í samræmi við metnað félagsins og því hafi verið gripið til þessara ráða.
Þá staðfestir félagið að starfslið Spánverjans hverfi allt á brott með honum en Lopetegui og samstarfsmönnum hans eru þökkuð góð störf.
Ennfremur er sagt að unnið sé að ráðningu eftirmanns hans en ekki verið sagt meira að svo stöddu.
Lopetegui var aðeins átta mánuði við störf hjá West Ham en hann tók við sem knattspyrnustjóri síðasta vor.
West Ham hefur ekki farið leynt með fyrirætlanir sínar síðustu daga en samkvæmt Sky Sports mættu þeir Graham Potter, Paulo Fonseca og Christoph Galtier allir í atvinnuviðtal hjá félaginu í gær.
West Ham er í fjórtánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar og hefur aðeins unnið tvo af síðustu átta leikjum sínum.