Slot: Myndi frekar vilja vita það

Arne Slot.
Arne Slot. AFP/Darren Staples

Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, var ekki sáttur við að Lucas Bergvall hafi ekki fengið sitt annað gula spjald og þar með rautt nokkrum mínútum áður en hann skoraði sigurmark Tottenham Hotspur í 1:0-sigri í undanúrslitum enska deildabikarsins í gærkvöldi.

Bergvall þrumaði Kostas Tsimikas niður, Stuart Attwell dómari beitti hagnaði þar sem Liverpool hélt boltanum en ákvað að gefa Bergvall ekki sitt annað spjald eftir að boltinn fór úr leik.

Tsimikas var svo utan vallar og Liverpool því tímabundið einum manni færri þegar Tottenham geystist í sókn og Bergvall skoraði sitt fyrsta mark á ferlinum fyrir liðið.

Þarf ekki að útskýra neitt

Tottenham hafði fyrr í leiknum skorað en það mark var dæmt af vegna rangstöðu eftir skoðun VAR. Attwell tilkynnti áhorfendum á Tottenham Hotspur-leikvanginum um hvers vegna dómararnir hafi komist að þeirri ákvörðun.

„Þegar kom að VAR ákvörðuninni þurfti hann að tilkynna öllum hver ákvörðun hans var. Því miður þurfti hann ekki að gera það í hinni ákvörðuninni.

Ef það er rangstaða þá held ég að enginn þurfti að útskýra neitt. Það hefði verið áhugaverðara ef hann hefði útskýrt hvers vegna hann gaf ekki seinna gula spjaldið!“ sagði Slot á fréttamannafundi eftir leikinn í gærkvöldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert