Draumur rætist á Anfield

Anfield í Liverpool.
Anfield í Liverpool. AFP/Darren Staples

Draumur Josh Woods, sóknarmanns Accrington Stanley og stuðningsmanns Liverpool, um að spila á Anfield rætist á morgun þegar liðin mætast í þriðju umferð ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu.

Woods var á meðal áhorfenda á Anfield þegar Liverpool vann Bayer Leverkusen 4:0 í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í nóvember og mætti á Wembley þegar Liverpool vann Chelsea í úrslitaleik bikarkeppninnar árið 2022.

„Þegar ég fer og horfi á Liverpool hugsa ég alltaf með mér: „Ég myndi elska að spila á Anfield einn daginn.“ Núna er það að fara að gerast. Draumar rætast,“ sagði Woods í samtali við breska ríkisútvarpið.

Liverpool er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar á meðan Accrington Stanley er í 19. sæti í D-deildinni og því er afar erfitt verkefni sem bíður Woods og félaga.

Hann er 24 ára framherji sem hefur skorað þrjú mörk í 16 deildarleikjum og eitt mark í tveimur bikarleikjum á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert