Darren Ferguson, knattspyrnustjóri Peterborough United, hefur varið þá ákvörðun sína að setja ekki táninginn Tyler Young inn á sem varamann í 2:0-tapi liðsins fyrir Everton í ensku bikarkeppninni í gærkvöldi. Faðir Tylers, Ashley, kom inn á hjá Everton.
Vonuðust því margir til þess að feðgarnir Tyler, sem er 18 ára miðjumaður, og Ashley, sem er 39 ára bakvörður, myndu mætast í keppnisleik. Ashley hafði sagt við enska fjölmiðla fyrir leik að það myndi vera hápunktur ferils síns.
„Það var mjög erfitt að skilja Tyler eftir á bekknum en ég verð að gera það sem ég tel vera best fyrir liðið. Eins mikið og ég vildi setja hann inn á, ef staðan hefði verið 2:0 á þeim tímapunkti hefði ég sett hann inn á en í stöðunni 1:0 þurfti ég að setja sóknarmann inn á.
Ég varð að reyna að fá eitthvað út úr leiknum og gera það sem kemur liðinu mínu best. Einn af leikmönnum þeirra hraunaði yfir mig sem var fullkomlega óviðeigandi. Við erum ekki góðgerðarsamtök,“ sagði Ferguson við fréttamenn eftir leikinn.
Everton bætti við öðru marki í uppbótartíma og vann leikinn að lokum 2:0 en þá var Ferguson, sem er sonur Sir Alex, búinn með allar fimm skiptingar sínar.