Enska knattspyrnufélagið Arsenal hefur staðfest að brasilíski sóknarmaðurinn Gabriel Jesus hafi slitið krossband í hné og að tímabili hans sé því lokið.
Sky Sports greinir frá og þar kemur fram að Jesus muni gangast undir skurðaðgerð vegna meiðslanna.
Krossbandsslit þýða iðulega níu til tólf mánaða fjarveru og því er ljóst að sóknarmaðurinn snýr ekki aftur fyrr en á næsta tímabili.
Jesus meiddist á hné þegar hann lenti illa eftir að hafa hlaupið aftan á Bruno Fernandes, fyrirliða Manchester United, í leik liðanna í ensku bikarkeppninni á sunnudag.
Var Jesus borinn af velli og strax óttast að krossbandið hafi slitnað, sem er illu heilli raunin.