Arsenal hafði betur gegn Tottenham Hotspur, 2:1, í Norður-Lundúnaslag í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla á Emirates-leikvanginum í kvöld.
Með sigrinum fór Arsenal upp fyrir Nottingham Forest og situr nú í öðru sæti með 43 stig, fjórum á eftir toppliði Liverpool sem á að vísu leik til góða.
Tottenham siglir lygnan sjó og er í 13. sæti með 24 stig.
Öll mörkin í kvöld komu í fyrri hálfleik. Fyrirliðinn Son Heung-Min kom gestunum í Tottenham yfir á 25. Mínútu þegar skot hans á lofti fyrir utan vítateig fór í Thomas Partey, breytti þannig um stefnu og hafnaði niðri í horninu.
Fimm mínútum áður en flautað var til leikhlés jafnaði Arsenal metin þegar Dominic Solanke varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir hornspyrnu.
Stuttu síðar, á 44. mínútu, skoraði Leandro Trossard svo sigumark Arsenal þegar hann fékk boltann frá fyrirliðanum Martin Ödegaard vinstra megin í vítateignum, tók vinstri fótar skot sem Antonin Kinský í marki Tottenham réði ekki við og boltinn hafnaði niðri í fjærhorninu.