Aston Villa hafði betur gegn Everton, 1:0, þegar liðin mættust í 21. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla á Goodison Park í Liverpool. Um fyrsta leik Everton var að ræða eftir að David Moyes tók aftur við liðinu.
Ollie Watkins skoraði sigurmark Villa snemma í síðari hálfleik. Hann renndi þá boltanum milli fóta Jordans Pickfords í marki Everton eftir sendingur Morgans Rogers.
Villa fór með sigrinum upp í sjöunda sæti þar sem liðið er með 35 stig. Everton er áfram í 16. sæti með 17 stig, einu stigi fyrir ofan fallsæti.
Newcastle United fékk Wolverhampton Wanderers í heimsókn og vann öruggan sigur, 3:0, sem var sjötti deildarsigur liðsins í röð. Newcastle hefur raunar unnið níu leiki í röð í öllum keppnum.
Newcastle er í fjórða sæti með 38 stig og Úlfarnir fóru með tapinu niður í 18. sæti, fallsæti, þar sem liðið er með 16 stig, jafnmörg og Ipswich Town sæti ofar en með slakari markatölu.
Í kvöld hélt Alexander Isak áfram að gera það gott en hann skoraði tvívegis og er kominn með 17 mörk í deildinni, einu minna en sá markahæsti, Mohamed Salah.
Isak lagði auk þess upp þriðja markið fyrir Gordon.
Crystal Palace gerði þá afar góða ferð til Leicester og vann heimamenn í Leicester City 2:0.
Með sigrinum fór Palace upp í 14. sæti þar sem liðið er með 24 stig, átta stigum fyrir ofan fallsvæðið. Leicester er áfram í 19. og næstneðsta sæti með 14 stig.
Eftir markalausan fyrri hálfleik voru það Jean-Philippe Mateta og fyrirliðinn Marc Guéhi sem skoruðu fyrir Palace í síðari hálfleik.