Tap í endurkomu Moyes – Isak óstöðvandi

David Moyes á hliðarlínunni á Goodison Park í kvöld.
David Moyes á hliðarlínunni á Goodison Park í kvöld. AFP/Oli Scarff

Aston Villa hafði betur gegn Everton, 1:0, þegar liðin mættust í 21. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla á Goodison Park í Liverpool. Um fyrsta leik Everton var að ræða eftir að David Moyes tók aftur við liðinu.

Ollie Watkins skoraði sigurmark Villa snemma í síðari hálfleik. Hann renndi þá boltanum milli fóta Jordans Pickfords í marki Everton eftir sendingur Morgans Rogers.

Villa fór með sigrinum upp í sjöunda sæti þar sem liðið er með 35 stig. Everton er áfram í 16. sæti með 17 stig, einu stigi fyrir ofan fallsæti.

Sjötti sigur Newcastle í röð

Newcastle United fékk Wolverhampton Wanderers í heimsókn og vann öruggan sigur, 3:0, sem var sjötti deildarsigur liðsins í röð. Newcastle hefur raunar unnið níu leiki í röð í öllum keppnum.

Newcastle er í fjórða sæti með 38 stig og Úlfarnir fóru með tapinu niður í 18. sæti, fallsæti, þar sem liðið er með 16 stig, jafnmörg og Ipswich Town sæti ofar en með slakari markatölu.

Í kvöld hélt Alexander Isak áfram að gera það gott en hann skoraði tvívegis og er kominn með 17 mörk í deildinni, einu minna en sá markahæsti, Mohamed Salah.

Isak lagði auk þess upp þriðja markið fyrir Gordon.

Palace fjarlægist fallsvæðið

Crystal Palace gerði þá afar góða ferð til Leicester og vann heimamenn í Leicester City 2:0.

Með sigrinum fór Palace upp í 14. sæti þar sem liðið er með 24 stig, átta stigum fyrir ofan fallsvæðið. Leicester er áfram í 19. og næstneðsta sæti með 14 stig.

Eftir markalausan fyrri hálfleik voru það Jean-Philippe Mateta og fyrirliðinn Marc Guéhi sem skoruðu fyrir Palace í síðari hálfleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert