Sóknarmaður Liverpool enn og aftur meiddur?

Diogo Jota.
Diogo Jota. AFP/Oli Scarff

Portúgalski knattspyrnumaðurinn Diogo Jota er að glíma við meiðsli og er óvíst um þátttöku hans þegar lið hans Liverpool heimsækir Brentford í 22. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á morgun.

Þetta tilkynnti Arne Slot, stjóri Liverpool, á blaðamannafundi í dag en Jota, sem er 28 ára gamall, hefur verið mikið meiddur allt frá því að hann gekk til liðs við Liverpool frá Wolves, sumarið 2020.

Jota, sem skoraði jöfnunarmark Liverpool gegn Nottingham Forest á þriðjudaginn var í 1:1-jafntefli liðanna í 21. umferð deildarinnar í Nottingham, gat ekki æft með liðinu í gær vegna vöðvameiðsla.

Sóknarmaðurinn hefur aðeins komið við sögu í 13 leikjum með Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu en hefur þrátt fyrir það skorað fimm mörk í deildinni. Hann hefur misst af 12 leikjum Liverpool á tímabilinu vegna vöðvameiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert