Harvey Elliott, hetja Liverpool í 2:1-sigri á Lille í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í gærkvöldi, kveðst ekki vera á förum frá félaginu í janúarglugganum.
Elliott hefur ekki verið í stóru hlutverki á yfirstandandi tímabili en hefur minnt á sig í síðustu tveimur leikjum með góðum innkomum af varamannabekknum.
Skoraði hann sigurmarkið gegn Lille í gærkvöldi og lagði upp mark í 2:0-sigri á Brentford í ensku úrvalsdeildinni um helgina auk þess að eiga stóran þátt í hinu markinu.
„Frá því ég var krakki hefur mig dreymt um að spila á þessu stigi og því vildi ég njóta augnabliksins, taka á mig ábyrgð og hjálpa liðinu,“ sagði Elliott við fréttamenn eftir leikinn gegn Lille í gærkvöldi.
Í enskum fjölmiðlum hefur hann verið orðaður við brottför í mánuðinum. Elliott fagnaði sigurmarki sínu innilega og var spurður út í fagnið.
„Það var frekar augljóst. Ég er ekki á förum. Þetta er liðið mitt og félagið mitt. Ég er mikill stuðningsmaður liðsins og við erum í frábærri stöðu hingað til á tímabilinu,“ útskýrði hann.
Liverpool er á toppnum í deildarkeppni Meistaradeildarinnar og ensku úrvalsdeildarinnar.