Enski knattspyrnumaðurinn Curtis Jones, miðjumaður Liverpool, verður ekki með liðinu á morgun þegar það fær nýliða Ipswich Town í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni.
Jones meiddist í 2:1-sigri Liverpool á Hákoni Arnari Haraldssyni og félögum í Lille í Meistaradeild Evrópu á þriðjudagskvöld. Fór hann af þeim sökum út af í hálfleik.
„Hann fór út af í hálfleik þannig að það er ekki góðs viti. Hann verður ekki með í leiknum á morgun. Við þurfum að bíða og sjá hversu lengi hann verður frá.
Ég er ekki að búast við mánuðum en við þurfum að sjá hvort hann verði klár í slaginn fyrir PSV eða Bournemouth,“ sagði Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, á fréttamannafundi í morgun.
Liðið mætir PSV Eindhöven í Meistaradeildinni í næstu viku og svo Bournemouth í úrvalsdeildinni um þarnæstu helgi.