Verða stig dregin af United?

Liðsmenn Manchester United fagna marki.
Liðsmenn Manchester United fagna marki. AFP/Oli Scarff

Enska knattspyrnufélagið Manchester United segir í bréfi til stuðningsmannasamtaka að það sé nálægt því að brjóta gegn reglum úrvalsdeildarinnar um hagnað og sjálfbærni í rekstri. Félagið verði að bregðast strax við og hækkun á miðaverði á leiki karlaliðsins geti verið hluti af því.

Samkvæmt þessum reglum mega félög tapa allt að nettó 105 milljónum punda yfir þriggja ára tímabil. United tapaði 113,2 milljónum punda á síðasta rekstrarári. Árið áður tapaði félagið 28,7 milljónum punda og rekstrarárið á undan því tapaði það 115,5 milljónum punda.

Samtals hefur United tapað 370 milljónum punda á síðustu fimm árum. Fari svo að félagið geti ekki sýnt fram á að það hafi fylgt þessum reglum á karlaliðið það á hættu að úrvalsdeildin dragi stig af því.

Þurfum að taka erfiðar ákvarðanir

„Ef við bregðumst ekki við núna eigum við það á hættu að fylgja ekki reglum um hagnað og sjálfbærni í rekstri [PSR]/reglum um fjárhagslega háttvísi [FFP]. Sem stendur erum við að tapa háum fjárhæðum ár hvert, yfir 300 milljónum punda á síðustu þremur árum.

Það er ekki sjálfbært. Við þurfum að taka erfiðar ákvarðanir. Þær hafa falið í sér mikinn niðurskurð starfsmanna auk minni eyðslu alls staðar hjá félaginu. Við krefjumst þess ekki að stuðningsmenn bæti upp núverandi skort.

En við þurfum að líta til þess hvernig við rukkum fyrir miða til þess að sjá til þess að við séum að rukka réttar upphæðir og bjóðum upp á viðeigandi afslætti á vörum okkar fyrir stuðningsmenn okkar,“ sagði meðal annars í bréfinu.

Bréfið var ritað sem svar við kvörtunum stuðningsmannasamtak yfir því að verð hafi hækkað á leiki á Old Trafford á miðju tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert