Ruben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, var harðorður í garð Marcusar Rashfords eftir sigur liðsins gegn Fulham í 23. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í Lundúnum í gær.
Leiknum lauk með naumum sigri United, 1:0, en Rashford var utan hóps hjá United líkt og venjan hefur verið allt frá því að Amorim tók við stjórnartaumunum hjá félaginu í nóvember á síðasta ári.
Amorim var spurður út í fjarveru Rashfords en hann hefur verið sterklega orðaður við brottför frá félaginu undanfarnar vikur.
„Ef ekkert breytist þá mun ég ekki breytast heldur,“ sagði Amorim á fjölmiðlafundi eftir leikinn þegar hann var spurður út í fjarveru Rashfords.
„Þetta gildir um alla leikmenn liðsins. Ef allir gera sitt og leggja sig fram, alla daga á æfingasvæðinu, þá eiga allir leikmenn jafn mikla möguleika á því að spila.
Ég myndi frekar velja Jorge Vital [markvarðaþjálfara liðsins] í liðið, frekar en leikmann sem gefur sig ekki allan í þetta,“ bætti Amorim við en Vital er 63 ára gamall Portúgali.