„Ljósið við enda ganganna hefur reynst vera lest“

Erfiðlega hefur gengið hjá lærisveinum Ange Postecoglou í Tottenham undanfarna …
Erfiðlega hefur gengið hjá lærisveinum Ange Postecoglou í Tottenham undanfarna mánuði. AFP/Henry Nicholls

„Alltaf þegar ég hef séð ljósið við enda ganganna hefur það reynst vera lest á fullri ferð,“ sagði Ange Postecoglou, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, um ótrúleg meiðslavandræði liðsins á tímabilinu.

Alls eru 13 leikmenn á meiðslalistanum hjá Tottenham um þessar mundir, og stór hluti þeirra byrjunarliðsmenn. Þegar leikmaður snýr til baka virðist annar meiðast í staðinn.

„Þetta hefur verið þessi mikli vítahringur. Þegar litið er til þess fjölda leikja sem lið eru að spila höfum við verið í ansi öfgafullum aðstæðum en fjöldi félaga í Evrópu er að glíma við svipuð vandamál,“ bætti Postecoglou við á fréttamannafundi í dag.

Ástralski stjórinn kveðst þó vongóður að endurheimta nokkurn fjölda leikmanna á næstu tíu dögum. Nefndi hann í því samhengi markvörðinn Guglielmo Vicario, varnarmanninn Destiny Udogie og miðjumanninn James Maddison ásamt sóknarmönnunum Brennan Johnson, Timo Werner og Wilson Odobert.

Postecoglou reiknar hins vegar með því að miðvörðurinn Cristian Romero og framherjinn Dominic Solanke verði lengur frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert