Everton vann stórsigur á Leicester, 4:0, í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Everton er í 15. sæti með 26 stig og Leicester í 17. sæti með 17 stig.
Liverpool-liðið byrjaði með miklum látum því Abdoulaye Doucouré kom Everton yfir strax á 1. mínútu og Beto bætti við öðru marki fimm mínútum síðar.
Beto gerði annað markið sitt og þriðja mark Everton í uppbótartíma fyrri hálfleiks og Iliman Ndiaye gerði fjórða markið undir lokin.
Botnlið Southampton vann sinn fyrsta leik í deildinni í þrjá mánuði er liðið lagði Ipswich í nýliðaslag á útivelli.
Joe Aribo kom Southampton yfir á 21. mínútu en Liam Delap jafnaði tíu mínútum síðar. Var staðan 1:1 fram að 87. mínútu er Paul Onuachu tryggði Southampton sigur.
Southampton er sem fyrr á botninum en nú með níu stig, átta stigum frá öruggu sæti. Ipswich er í næstneðsta sæti með 16 stig, einu stigi frá öruggu sæti.
Þá gerði Fulham góða ferð til Newcastle og vann 2:1. Jacob Murphy kom Newcastle yfir á 37. mínútu en Raul Jiménez jafnaði á 61. mínútu og Rodrigo Muniz gerði sigurmarkið á 82. mínútu.