Bandaríkjamaðurinn Todd Boehly, eigandi og stjórnarformaður enska knattspyrnufélagsins Chelsea, gæti verið í vandræðum eftir að upp komst að hann er einn af eigendum vefsíðunnar Vivid Seats.
Á vefsíðunni er hægt að kaupa miða á hina ýmsu viðburði og þar á meðal leiki í ensku úrvalsdeildinni. Samkvæmt deildinni selur vefsíðan miða á leiki deildarinnar, þar á meðal leiki Chelsea, ólöglega.
Síðan er t.a.m. með miða til sölu á leik Chelsea og Liverpool á Stamford Bridge á 6.604 pund eða 1,2 milljónir króna.
Chelsea birti frétt á heimasíðu sinni fyrir ári síðan um að félagið væri staðráðið í því að gera hvað það gæti til að koma í veg fyrir sölu á miðum með þessum hætti.
Vivid Seats fær um 10 prósenta hlutfall hverrar sölu á síðunni. The Athletic greindi frá og hafði samband við Chelsea, sem vildi ekki tjá sig um málið.