Ruud van Nistelrooy, knattspyrnustjóri Leicester City, hefur greint frá því að tveir kornungir leikmenn verði á varamannabekknum þegar liðið heimsækir Manchester United á Old Trafford í ensku bikarkeppninni annað kvöld.
Um er að ræða Jeremy Monga, sem er 15 ára kantmaður, og Jake Evans, sem er 16 ára kantmaður.
„Í ensku bikarkeppninni gefst frábært tækifæri til þess að sýna fyrir hvað þú stendur og það er sömuleiðis frábært að geta haft unga leikmenn sem hluta af liði mínu á morgun, einn 15 ára og annan 16 ára,“ sagði van Nistelrooy á fréttamannafundi í dag.
„Þeir verða hluti af leikmannahópnum og verða meira að segja á varamannabekknum. Það er í svona tilfellum sem maður gefur leikmönnum tækifæri,“ bætti hann við.