Verulega ósáttur við Blackburn

Arnór Sigurðsson í leik með Blackburn Rovers.
Arnór Sigurðsson í leik með Blackburn Rovers. AFP/Paul Ellis

Knattspyrnumanninum Arnóri Sigurðssyni var tilkynnt í morgun að hann væri ekki á 25-manna leikmannalista Blackburn Rovers fyrir síðari hluta tímabilsins í ensku B-deildinni.

Í samtali við Vísi sagði Skagamaðurinn að ákvörðunin hefði komið flatt upp á hann. Arnór kvaðst þar ósáttur við tímasetninguna, ekki síst þar sem félagaskiptaglugganum í janúar hefur verið lokað og möguleikarnir því ekki jafn margir fyrir hann til þess að leita annað.

„Fyrst og fremst finnst mér það bara óheiðar­legt hjá félaginu, hvernig þeir gera þetta. Ég hef alltaf verið fag­maður í þessu, alltaf gefið mig allt mitt í þetta fyrir félagið en síðan ákveða þeir að gera þetta svona.

Bíða eftir að félag­skipta­glugginn lokar og til­kynna mér þetta svo. Þeir setja mig í ómögu­lega stöðu. Ég er að renna út á samning eftir tíma­bilið og er búinn að vera meiddur. Það er kannski auðvelt að henda manni burt þegar að maður ætlar ekki að endur­semja,“ sagði Arnór við Vísi.

Arnór í leik með Blackburn.
Arnór í leik með Blackburn. AFP/Glyn Kirk

Eitthvað sem ég þarf að skoða

Samningur hans rennur út í sumar og hefur Arnór því spilað sinn síðasta leik fyrir liðið. Kantmaðurinn hefur aðeins náð að spila fimm leiki fyrir Blackburn á tímabilinu vegna veikinda og svo meiðsla og getur brátt hafið æfingar að nýju.

„Það eru ein­hverjir félags­skipta­gluggar opnir en það er bara eitt­hvað sem ég þarf að skoða. Eins og staðan er núna er ég ekki að pæla í neinu öðru en að ná mér heilum,“ bætti Arnór við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert