Brasilíski fótboltamaðurinn Casemiro gæti verið á förum frá Manchester United þrátt fyrir að búið að loka félagaskiptaglugganum á Englandi.
Það er brasilíski fjölmiðlamaðurinn Jorge Nicola sem greinir frá þessu en Casemiro, sem er 32 ára gamall, hefur ekki átt fast sæti í liði United frá því að Ruben Amorim tók við stjórnartaumunum hjá félaginu í nóvember á síðasta ári.
Casemiro gekk til liðs við United frá Real Madrid sumarið 2022 og átti frábært fyrsta tímabil á Old Trafford en síðan þá hefur leiðin legið niður á við hjá miðjumanninum.
Forráðamenn Flamengo í Brasilíu hafa mikinn áhuga á því að semja við Casemiro og hann gæti gengið til liðs við brasilíska félagið á láni frá United á næstu dögum.