Liverpool með augastað á fjórða Hollendingnum

Frenkie de Jong hefur ekki átt fast sæti í liði …
Frenkie de Jong hefur ekki átt fast sæti í liði Barcelona á tímabilinu. AFP/Haitham Al-Shukairi

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool hafa mikinn áhuga á hollenska miðjumanninum Frenkie de Jong.

Það er spænski miðillinn El Nacional sem greinir frá þessu en de Jong, sem er 27 ára gamall, er til sölu og gæti yfirgefið herbúðir spænska félagsins í sumar.

Hann hefur verið sterklega orðaður við Manchester United undanfarin ár, sér í lagi þegar Erik ten Hag var stjóri United, en þeir unnu saman hjá Ajax á sínum tíma.

Hafa sent fyrirspurnir um leikmanninn

De Jong er á meðal launahæstu leikmanna spænska liðsins en Hansi Flick, stjóri Barcelona, hefur lítinn áhuga á því að nota hollenska miðjumanninn.

Barcelona er sagt tilbúið að selja leikmanninn fyrir 40 milljónir evra í sumar en þeir borguðu Ajax 75 milljónir evra fyrir hann sumarið 2019.

Í frétt El Nacional kemur meðal annars fram að Deco, yfirmaður knattspyrnumála hjá Barcelona, hafi fengið fyrirspurnir frá Liverpool í leikmanninn að undanförnu en Arne Slot, sjóri Liverpool, er sagður vilja styrkja miðsvæðið hjá sér fyrir næsta tímabil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert