Vill brúa bilið á milli Everton og Liverpool

David Moyes.
David Moyes. AFP/Paul Ellis

David Moyes, knattspyrnustjóri Everton, segir bilið á milli liðsins og nágrannana í Liverpool vera eins mikið og það geti mögulega verið.

Everton hefur ekki hafnað ofar en Liverpool í ensku úrvalsdeildinni síðan tímabilið 2012-13, þegar Moyes stýrði Everton síðast og fór svo um sumarið til Manchester United.

Everton hefur verið í fallbaráttu undanfarin tímabil og átt í fjárhagsvandræðum sem urðu meðal annars til þess að stig voru dregin af liðinu á meðan Liverpool hefur verið í toppbaráttu og varð Englandsmeistari árið 2020.

Djúp gjá á milli liðanna

„Það er djúp gjá á milli liðanna tveggja og það vita allir af þeim vandræðum sem félagið hefur átt í. Biliði á milli liðanna í augnablikinu er líklega eins og mikið og það hefur verið í langan tíma.

Ég þarf að brúa þetta bil og koma liðunum nær hvoru öðru. Ég hugsa alltaf til síðustu tveggja ára minna þegar við enduðum tvisvar fyrir ofan Liverpool í deildinni. Það tók okkur nokkur ár að komast á þann stað.

Það eru nokkur ár í það ennþá þar til við verðum reiðubúnir að keppa við Liverpool á ný,“ sagði Moyes á fréttamannafundi í dag.

Everton fær Liverpool í heimsókn í borgarslag, þeim síðasta á Goodison Park, í úrvalsdeildinni annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert