Everton og Liverpool skildu jöfn, 2:2, í Liverpool-borgarslagnum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla á Goodison Park í kvöld. James Tarkowski jafnaði metin fyrir Everton á áttundu mínútu uppbótartíma.
Liverpool er áfram í toppsæti deildarinnar, nú með 57 stig, og Everton er í 15. sæti með 27 stig.
Beto kom Everton yfir á 11. mínútu leiksins en Alexis Mac Allister jafnaði metin aðeins fimm mínútum síðar. Mohamed Salah kom svo Liverpool yfir á 73. mínútu og það leit allt út fyrir sigur Liverpool en á áttundu mínútu uppbótartíma jafnaði fyrirliði Everton, James Tarkowski, metin með stórglæsilegu skoti á lofti og það varð hreinlega allt vitlaust á vellinum.
Þetta var síðasti leikur þessara liða á Goodison Park þar sem þetta er síðasta tímabil Everton á þessum velli en á næsta tímabili mun liðið spila á nýjum velli, Everton Stadium. Þessi úrslit þýða að Liverpool er núna með sjö stiga forystu á toppi deildarinnar en Everton er í 15. sæti deildarinnar með 27 stig.
Það var ljóst frá fyrstu mínútu á Goodison Park í kvöld að baráttan yrði í aðalhlutverki. Liðin voru ekki að skapa sér mörg marktækifæri en það tók samt heimamenn aðeins 11 mínútur að komast yfir í leiknum. Þá fékk Everton aukaspyrnu á miðjum vellinum. Jarrad Branthwaite tók spyrnuna og renndi boltanum inn fyrir vörn Liverpool og Beto var allt í einu kominn einn í gegn á móti Alisson og setti boltann smekklega framhjá honum og í netið. Það tók Liverpool aðeins tæplega fimm mínútur að jafna metin en þá átti Mo Salah flotta sending inn á teig Everton og þar stökk Alexis Mac Allister manna hæst og skallaði hann í netið. Þannig að staðan eftir aðeins 16 mínútur var orðin 1:1.
Eftir þetta tók baráttan við. Liðinum gekk illa að skapa sér færi og menn virtust meira að vera að hugsa um að ýta frá sér en að spila boltanum. Alls gaf Michael Oliver, dómari leiksins, fimm leikmönnum gula spjaldið í fyrri hálfleik.
Í seinni hálfleik hélt baráttan áfram og það var satt að segja lítið að gerast þangað til að Mohamed Salah kom gestunum yfir á 73. mínútu en það var í fyrsta sinn í seinni hálfleik sem leikmenn Liverpool komust í alvöru færi. Curtis Jones átti gott skot sem Jarrad Branthwaite skallaði frá en boltinn fór beint á Salah sem negldi boltanum í netið. Það var svo á 99. mínútu leiksins að það dró aftur til tíðinda í leiknum en þá kom sending fyrir mark Liverpool sem varamaðurinn Tim Irogbunam náði að skalla áfram á James Tarkowski sem setti boltann smekklega efst í markhornið og jafnaði metin. Það varð eðlilega allt vitlaust á vellinum en það tók töluverða stund að skoða markið í VAR og sömuleiðis að koma stuðningsmönnum Everton útaf vellinum. Nánast strax eftir miðju Liverpool flautaði Michael Oliver til leiksloka og lokatölur því 2:2.
Þegar flautað var til leiksloka urðu mikil læti á vellinum en meðal annars fengu Curtis Jones og Doucouré að líta rauða spjaldið og sömuleiðis fékk Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, að líta rauða spjaldið en hann var ekki sáttur með dómara leiksins í leikslok. Líklega var Slot ósáttur með langan uppbótartíma en uppgefinn uppbótartími í seinni hálfleik var fimm mínútur en markið kom eftir rúmlega átta mínútur í uppbótartímanum. Tveir leikmenn Everton rákust saman í uppbótartímanum og því þurfti að stoppa leikinn í smá tíma af þeim sökum.
Everton spilar næst gegn Crystal Palace á laugardaginn á útivelli en Liverpool á leik gegn Wolves á heimavelli á sunnudaginn.