United íhugar frekari niðurskurð

Sir Jim Ratcliffe.
Sir Jim Ratcliffe. AFP/Daniel Leal

Íslandsvinurinn Sir Jim Ratcliffe, meðeigandi enska knattspyrnufélagsins Manchester United, íhugar nú frekari niðurskurð hjá félaginu.

Eftir að Ineos, fyrirtæki Ratcliffes, eignaðist minnihluta í Man. United tók hann yfir daglegan rekstur félagsins og hefur þegar skorið töluvert niður.

Til að mynda með því að segja 250 manns upp, greiða Sir Alex Ferguson ekki lengur fyrir starf sendiherra félagsins og leggja af ókeypis ferðalög starfsfólks á úrslitaleiki.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að félagið leiti nú frekari leiða til þess að skera niður kostnað þar sem Man. United hefði tapað tæplega 300 milljónum punda undanfarin þrjú ár.

Í því skyni kemur önnur hópuppsögn til greina og gæti á bilinu 100 til 200 manns átt von á því að missa störf sín hjá Man. United á næstunni. Þá gæti skrifstofu félagsins í Lundúnum verið lokað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert