Svissneski knattspyrnumaðurinn Manuel Akanji, miðvörður Englandsmeistara Manchester City, er meiddur og missir af þeim sökum af stórleikjum liðsins á næstunni.
Man. City á fyrir höndum leiki gegn Newcastle United og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni og þess á milli síðari leikinn gegn Real Madríd í umspili Meistaradeildar Evrópu.
Akanji fór meiddur af velli í hálfleik í fyrri leik liðsins gegn Real Madríd í Manchester á þriðjudagskvöld og greinir breska ríkisútvarpið frá því að hann muni að minnsta kosti missa af næstu þremur leikjum.
Um vöðvameiðsli er að ræða og óttast Man. City að Akanji verði lengi frá vegna þeirra.