Arne Slot mátti ekki ræða við fjölmiðla

Arne Slot var ósáttur á hliðarlínunni.
Arne Slot var ósáttur á hliðarlínunni. AFP/Paul Ellis

Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, mátti ekki ræða við fjölmiðla eftir jafntefli liðsins gegn Everton í frestuðum leik úr 15. umferð ensku úrvalsdeildarinnar sem fram fór á Goodison Park í Liverpool í gær.

Leiknum lauk með 2:2-jafntefli en James Tarkowski skoraði jöfnunarmark Everton þegar átta mínútur voru liðnar af uppgefnum uppbótartíma síðari hálfleiks.

Slot var mjög ósáttur með Michael Oliver, dómara leiksins, í gær og lét hann heyra það í leikslok með þeim afleiðingum að hann fékk að líta rauða spjaldið.

Reglur ensku úrvalsdeildarinnar kveða á um að ef leikmaður, þjálfari eða knattspyrnustjóri fær að líta rauða spjaldið í leikjum deildarinnar má hann ekki mæta í viðtöl eftir leikinn.

Spike Hulshoff, aðstoðarþjálfari Liverpool, fékk einnig að líta rauða spjaldið eftir að flautað hafði verið til leiksloka og því mætti enginn úr þjálfarateymi liðsins á blaðamannafund í leikslok.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert