Graham Potter, knattspyrnustjóri West Ham United, segir brottrekstur sinn frá Chelsea á sínum tíma hafa reynst sér erfiður en að hann hafi á endanum styrkt sig.
Potter var ráðinn stjóri Chelsea í september árið 2022 eftir að hafa náð eftirtektarverðum árangri með Brighton & Hove Albion, Swansea City og Östersund í Svíþjóð.
Hann var svo rekinn í apríl 2023 og tók ekki að sér stjórastarf fyrr en í byrjun þessa árs þegar West Ham réði Potter.
„Þið getið ímyndað ykkur að á þeim tíma var ég ekki á góðum stað því maður er vonsvikinn að missa starfið sitt eftir slæmt gengi, eða að minnsta kosti ekki jafn gott og þú hefðir viljað,“ sagði hann í viðtali í sjónvarpsþættinum Football Focus.
Spurður hvaða ráð Potter myndi gefa sjálfum sér hefði hann kost á því sagði Potter:
„Það verður allt í lagi. Ég tel að þetta geri þig betri, styrki þig sem persónu og gerir þig að betri þjálfara.“