Aston Villa og Ipswich skildu jöfn, 1:1, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í Birmingham í dag.
Axel Tuanzebe, leikmaður Ipswich, fékk sitt annað gula spjald og rautt á 40. mínútu. Þrátt fyrir það komst Ipswich yfir á 56. mínútu eftir mark frá Liam Delap.
Enski framherjinn Ollie Watkins jafnaði metin fyrir Villa á 69. mínútu. Lokaniðurstöður því 1:1-jafntefli.
Aston Villa situr í níunda sæti með 38 stig en Ipswich er í 18. sæti með 17 stig.
Fulham vann sterkan sigur gegn Nottingham Forest, 2:1, í Lundúnum í dag.
Emile Smith Rowe kom heimamönnum yfir á 15. mínútu. Markahrókurinn Chris Wood jafnaði metin á 37. mínútu og var staðan 1:1 í hálfleik.
Varnarmaðurinn Calvin Bassey skoraði sigurmark Fulham á 62. mínútu.
Forest er áfram í þriðja sæti með 47 stig en Fulham er komið upp í áttunda sæti með 39 stig.
Gott gengi Bournemouth heldur áfram en liðið vann 3:1-sigur gegn Southampton í Suðurstrandarslag í dag.
Dango Ouattara, Ryan Christie og Marcus Tavernier skoruðu mörk Bournemouth en Kamaldeen Sulemana skoraði mark Southampton.
Bournemouth er í fimmta sæti deildarinnar með 43 stig, einu stigi frá Manchester City í fjórða sætinu. Southampton er áfram á botninum með níu stig.
Að lokum hafði Brentford betur gegn West Ham, 1:0, í Lundúnaslag í dag.
Þjóðverjinn Kevin Schade skoraði sigurmark Brentford á fjórðu mínútu. Úrslitin þýða að Brentford er í 11. sæti með 34 stig en West Ham er í 16. sæti með 27 stig.
Hákon Rafn Valdimarsson var ónotaður varamaður hjá Brentford.