Tottenham hafði betur gegn Manchester United, 1:0, í 25. umferð í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu í dag.
Það eru 105 dagar síðan Tottenham vann síðast deildarleik á heimavelli en liðið er í 12. sæti í deildinni með 30 stig. Manchester United hefur tapað átta af síðustu tólf leikjum liðsins í deildinni og er í 15. sæti með 29 stig.
United fékk fyrsta hættulega færi leiksins á 11. mínútu en Guglielmo Vicario, aðalmarkmaður Tottenham sem var að koma til baka eftir meiðsli, varði vel. Harry Maguire sendi boltann upp völlinn á Rasmus Hojlund sem skaut en Vicario varði út í teig, þá komst Alejandro Garnacho í skot en Vicario varði aftur.
Mínútu síðar skoraði James Maddison mark Tottenham. Lucas Bergvall fór í skot inn í teig United en Onana varði boltann inn í teig, þar var Maddison mættur og potaði boltanum í netið og staðan var 1:0 í hálfleik.
Alejandro Garnacho átti tvö skot á markið með þriggja mínútna millibili í byrjun seinni hálfleiks en Vicario varði vel í bæði skiptin. Í fyrra skiptið komst hann einn í gegn en skaut beint á Vicario. Seinna skotið var frá vítastigslínunni, niður í hægra hornið en Vicario var fljótur niður.
Bæði lið áttu nokkur skot í varnarmenn og nokkrar fyrirgjafir en engin hættuleg færi í seinni fyrir utan þessi skot frá Garnacho og leikurinn endaði 1:0.