Ange Postecoglou, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, hefur enga samúð með Rúben Amorim, knattspyrnustjóra Manchester United, eftir að sá síðarnefndi kvartaði undan því hversu erfitt starf sitt væri.
Tottenham hafði betur gegn Man. United, 1:0, í ensku úrvalsdeildinni í gær og hefur gengið illa hjá Amorim eftir að hann tók við starfinu af Erik ten Hag í nóvember síðastliðnum.
Postecoglou hefur sjálfur átt í miklum vandræðum á tímabilinu enda eru bæði lið í neðri hlutanum. Meiðslakrísan hjá Tottenham hefur verið með nokkrum ólíkindum undanfarna mánuði og fékk Amorim að reyna það á eigin skinni í gær þar sem fjöldi leikmanna voru frá hjá United vegna meiðsla.
„Ef ég fer inn á skrifstofuna mína þá finn ég engin samúðarkort frá öðrum stjórum. Ég sá Rúben á hliðarlínunni í dag þar sem hann var með leikmenn spilandi út úr stöðum og krakka á bekknum.
Velkominn í mína veröld! En þetta var bara einn leikur. Prófaðu að gera þetta í tvo mánuði,“ sagði Postecoglou við fréttamenn eftir leik.