Brasilíski knattspyrnumaðurinn Casemiro er ekki á förum frá enska úrvalsdeildarfélaginu Manchester United.
Þetta tilkynnti leikmaðurinn í samtali við spænska miðillinn AS en miðjumaðurinn, sem er 32 ára gamall, hefur verið orðaður við brottför frá félaginu að undanförnu.
Casemiro er samningsbundinn United út keppnistímabilið 2025-26 og ætlar sér að virða þann samning.
„Ég á eitt og hálft ár eftir af samningi mínum við félagið og ég ætla mér að virða þann samning,“ sagði Casemiro í samtali við AS.
„Mér líður mjög vel í Manchester og fjölskyldunni minni líka. Við höfum aðlagast lífinu á Englandi og tölum öll ensku. Mér líður mjög vel hjá félaginu og er þakklátur fyrir allt mitt,“ bætti brasilíski miðjumaðurinn við.
Casemiro gekk til liðs við United frá Real Madrid sumarið 2022 fyrir 60 milljónir punda en hann á að baki 108 leiki fyrir félagið þar sem hann hefur skorað 15 mörk.