Leikmenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United eru margir hverjir að missa trúna á aðferðafræði portúgalska knattspyrnustjórans Ruben Amorim.
Það er Sportsmail sem greinir frá þessu en Amorim, sem er fertugur, tók við stjórnartaumunum hjá félaginu í nóvember á síðasta ári.
Gengi liðsins undir stjórn Amorim hefur alls ekki verið gott en liðið hefur aðeins unnið fjóra af fjórtán leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni, gert tvö jafntefli og tapað átta þeirra.
Amorim vill að liðið spili leikkerfið 3-4-3 en það hefur ekki reynst vel hingað til og eru margir leikmenn liðsins búnir að missa trúna á kerfinu að því er fram kemur í frétt Sportsmail.
United situr sem stendur í fimmtánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 29 stig, 12 stigum frá fallsæti þegar þrettán umferðum er ólokið.