Forráðamenn knattspyrnuliðs Barcelona á Spáni hafa mikinn áhuga á kólumbíska sóknarmanninum Luis Díaz.
Það er spænski miðillinn Sport sem greinir frá þessu en Díaz, sem er 28 ára gamall, er samningsbundinn enska úrvalsdeildarfélaginu Liverpool.
Hann gekk til liðs við Liverpool frá Porto í janúar árið 2022 en enska félagið borgaði 37,5 milljónir punda fyrir hann.
Díaz hefur skorað 9 mörk og lagt upp önnur tvö í 24 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu en hann er samningsbundinn Liverpool út keppnistímabilið 2026-27.
Forráðamenn Liverpool eiga í viðræðum við Díaz um nýjan samning en hann er verðmetinn á 80 milljónir punda.