Hollenski knattspyrnumaðurinn Cody Gakpo er ekki í leikmannahóp Liverpool fyrir leikinn gegn Aston Villa í 29. umferð ensku úrvalsdeildarinnar sem fram fer í Birmingham í kvöld.
Gakpo er að glíma við meiðsli í ökkla en hann missti einnig af leiknum gegn Wolves sem fram fór á Anfield í Liverpool í 25. umferð deildarinnar á sunnudaginn var.
Til stóð að leikur Aston Villa og Liverpool færi fram um miðjan mars en hann var færður vegna þátttöku Liverpool í úrslitaleik deildabikarsins þar sem Liverpool mætir Newcastle á Wembley þann 16. mars.
Gakpo hefur verið í fantaformi með Liverpool á tímabilinu og skorað átta mörk og lagt upp önnur þrjú í 24 leikjum í ensku úrvalsdeildinni. Alls hefur hann skorað 16 mörk og lagt upp fimm í 26 leikjum í öllum keppnum.