Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, var ósáttur með framherjann Darwin Núnez eftir að hann brenndi af upplögðu marktækifæri í leik Aston Villa og Liverpool í 29. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í Birmingham í gær.
Leiknum lauk með jafntefli, 2:2, en Núnez kom inn á sem varamaður á 66. mínútu í leiknum í stöðunni 2:2.
Framherjinn fékk sannkallað dauðafæri á 69. mínútu, þegar hann var einn fyrir opnu marki, en á einhvern óskiljanlegan hátt skaut hann yfir.
„Ég get sætt mig við það þegar leikmönnum tekst ekki að skora fyrir framan mark mótherjanna,“ sagði Slot í samtali við fjölmiðla eftir leikinn.
„Sérstaklega þegar það er leikmaður sem skoraði tvö mjög mikilvæg mörk fyrir okkur gegn Brentford. Auðvitað hefði ég viljað sjá boltann í netinu en þess vegna er þetta kallað færi, að komast í gott færi þýðir ekki alltaf að menn skori.
Það sem ég sætti mig hins vegar ekki við er hegðun leikmannsins eftir að hann klikkaði. Þetta komst augljóslega inn í hausinn á honum og hann varð aldrei samur eftir það. Vinnusemi hans var ekki sú sem ég er vanur að sjá,“ bætti Slot við.