Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool á Englandi, hefur játað sök eftir að enska knattspyrnusambandið kærði hann vegna framkomunnar í lok leiks Liverpool og Everton í ensku úrvalsdeildinni í síðustu viku.
Slot fékk rautt spjald í leikslok þegar hann gekk að Michael Oliver dómara leiksins og virtist láta misfögur orð falla. Sipke Hulshoff aðstoðarmaður Slots fékk einnig rautt spjald og er líka á leiðinni í bann.
Enn á eftir að ákveða hve langt bann þeir félagar fá en Slot hefur þegar tekið út eins leiks bann á leiktíðinni vegna þriggja gulra spjalda en hann var ekki á hliðarlínunni er Liverpool sigraði Southampton í deildabikarnum 18. desember.